miðvikudagur, mars 01, 2006

Tí.

Þegar ég var átta ára hélt ég og trúði staðfast að ég gæti sigrað heiminn, komist yfir allar hindranir, sigrast á öllum mínum andstæðingum og átt gott líf, eins og móðir mín orðaði það. Ég var samt ekkert að hlaupa með hausinn á undann í bumbuna á stærsta stráknum í skólanum sem fannst ekkert skemmtilegra í frímínútum en að setjast á mig og reka við. Nei, nei, ég er nefnilega ekkert svo heimskur samkvæmt þessu IQ prófi hérna þar sem kallinn negldi niður skor upp á 117(taktu það og troddu því upp í rassgatið á þér Biggi stærðfræðikennari!).
Þetta góða líf var bara rétt handan við hornið. Á því sekúndubroti sem ég lít fyrir hornið kemur þetta góða líf með risastóra Wok pönnu og þrykkir í andlitið á mér. Þetta var ekki það eina sem beið eftir mér. Þarna stóðu s.s. lífið, yfirdráttaheimild, visareikningur, bílalán, ríkistjórnin, skólinn og atvinnurekendur - allir með golfkylfu. Þar sem ég ligg, alblóðugur í andlitinu eftir helvítis Wok pönnuna, skiptast þeir á að láta mjög svo hnitmiðuð högg dynja á mænunni. Stundum taka þeir sér pásu, snúa mér við og nota hausinn á mér sem tí og vanda sig við að hitta ekki kúluna. Þetta hélt ég að þeir ætluðu að gera það sem eftir væri af þessu "góða lífi".
En svo hitti ég Siggu. Í þetta eina ár og 7 mánuði sem við höfum verið saman hefur henni tekist að slá af mér visareikninginn og yfirdráttaheimildina, sannfæra skólann um að slaka á höggunum og lífið er farið að hugsa um eitthvað allt annað. Við tókum á sprett og ríkistjórnin nennti ekki að elta en því nennti bílalánið aftur á móti, enda bens sko. Atvinnurekendur virðast hinsvegar hafa stofnað eitthvað félag og ætla sko ekki að gefast upp sem er líklega ástæðan fyrir því að ég sit hér heima á hádegi á virkum degi og er að blogga...Sigga er náttúrulega komin með vinnu. Eftir rúmlega 67 umsóknir hingað og þangað tókst henni þetta og í, að ég held, fyrsta skipti á ævinni lít ég virkilega upp til einhverrar manneskju og það er ekki af því að hún er að draga mig áfram í blóði mínu með skaddaða mænu.


...stundum er maður bara eins og fíll að drukkna...

2 Comments:

Blogger TaranTullan said...

Eftir svona 4 mín af þessu prófi nennti ég alls ekki meir.

Og eins og Plató sagði :snerting ástarinnar gerir hvern mann að ljóðskáldi...*tárniðurkinn*

miðvikudagur, mars 01, 2006  
Blogger Gummi said...

Þetta er soldið sniðugt af því að þú mátt ekki taka prófið aftur þó að þú hafir hætt í miðju...

fimmtudagur, mars 02, 2006  

Skrifa ummæli

<< Home