mánudagur, júlí 31, 2006

Hundraðasta færslan.....so very, very tired.

Jæja, þá er maður næstum búinn að vera hérna í heilt ár. Búinn að prufa ýmislegt. Sumt gáfulegra en annað. Enn að velta því fyrir mér af hverju H.H. er ekki búinn að kaupa TV2 og ráða mig í vinnu. Ég hef ekki snert klippiforrit síðan ég kom hingað og ég get nú alveg viðurkennt að ég sakna þess smá. En ekki nóg samt.
Ég prófaði líklega fleiri vinnur í vetur en flest fólk prófar alla sína ævi. Hitti margar kostulegar persónur. Vona svo sannarlega að ég þurfi ekki að fara í þanna pakka aftur.
Sigga komst ekki inn í læknisfræðina þetta árið en gæti hugsanlega komist í líffræðina. Efst á óskalistanum mínum er að hætta í þessari vinnu á spítalanum og komast í fullt starf einhvers staðar. Þarf ekki að vera sjónvarp. Margt annað sem að mig langar að prófa. Ef allt fer til fjandans þá er ég jafnvel að hugsa um að fara í rafvirkjanám.
Blómin eru ennþá lifandi en það er mjög tæplega.
Tengdó eru að koma í heimsókn í ágúst. Annað sinn sem að þau hafa komið í heimsókn hingað og ég hlakka bara til. Það var allavega gaman síðast þegar þau komu.
Mamma mín og pabbi hafa aldrei komið í heimsókn hingað...
Vinkona hennar Siggu og kærasti hennar kíktu líka á okkur í júní og svo kom bróðir hennar Siggu og familían hans í júlí. Obboð kátt í höllinni þá.
Ekki hefur neinum af vinum mínum dottið í hug að heimsækja okkur og það er allt í lagi...mér finnst þið ekkert skemmtileg heldur.
Bless.

fimmtudagur, júlí 27, 2006

Max Peezay.

Stokkhólmsk hipp hopp grúppa. Kveikja í dansgólfinu hef ég heyrt.

Ég sótti um sem dealer í gær. Hef ekki enn fengið svar. Spennó.
Fór líka á ströndina í gær. 30 stiga hiti. Brann. Ekki spennó.


Fólkens, ekki brenna í hnésbótinni. Það er vont.

þriðjudagur, júlí 25, 2006

Toumani Diabaté´s Symmetric Orchestra.

Neibb, það er engin ásláttarvilla í þessu nafni. Koma víst frá Afríku eða eitthvað álíka. Ofurhressir guttar hef ég lesið. Sá þá ekki. Þeir voru að spila á sama tíma og G & R. Eins og áður hefur komið fram hefði ég alveg geta sleppt þeim leiðindum og farið á Toumani Diabaté´s Symmetric Orchestra.

Það kom þá ekki bara að þeim degi að ég réðst á Butler: A smart move. Skrúfaði 5 skrúfur úr og var farinn að sleikja varirnar af tilhlökkun. Ég næ samt engu í sundur...hmmmm...snögg yfirlitsferð leiðir í ljós að ég er ekki búinn að skrúfa allar skrúfurnar úr. Við nánari athugun og reyndar allmargar tilraunir með bæði stjörnu og venjulegu skrúfjárni kemur í ljós að þetta eru ekki skrúfur. Ég veit ekkert hvað þetta er og meira að segja hamarinn minn er gagnslaus í þetta verk! Eina sem ég veit er að þetta heldur öllum Butlernum saman og ég á ekki eftir að komast lengra með þetta verkefni. Allavega ekki með þessi tól sem ég á. Bömmer. Var mikið búinn að hlakka til að rífa kvikindið í sundur.

Þetta er eins og ég segi alltaf: Ef það er ekki hægt að gera við það með hamri, þá er einfaldlega ekki þess virði að gera við það.

fimmtudagur, júlí 20, 2006

Zdob Si Zdub

Merkileg hljómsveit. Eða hvað veit ég, sá hana ekki. Skilst að þeir séu frá Moldavíu og frægasta lagði þeirra heitir "Bunica Bate Toba".

Ég hef aldrei verið sakaður um að vera neitt rosalega gáfaður og ég ætla ekki að fara að halda því fram að allar hjúkkur séu heimskar, þvert á móti. Það er aftur á móti ekkert nema loft á milli eyrnanna á hjúkkunum sem ég er að vinna með. En ég er nú bara ég og ætla þessa vegna að leyfa þér að dæma. Þetta er ca. hálftími úr mínum degi á spítalanum:

Síminn hringir. Ég svara.

H(hjúkka): Geturðu sótt fyrir mig röntgenmyndir?
G(það er ég): Ekkert mál.

Ég fer með myndirnar sem voru niður á jarðhæð og fer með þær upp á sjöttu hæð. Fer niður á fyrstu hæð og held áfram að þrífa. Næ reyndar ekki lengra en að setja á mig hanskana þegar síminn hringir aftur:

H: Heyrðu, við erum með röntgen myndir hérna uppi sem þú þarft að fara með niður á bráðamóttöku, stofu 7 og það liggur á! Sjúklingurinn er í slæmu ástandi.
G: Ég kem undir eins.

Upp á sjöttu hæð í snatri, gríp myndirnar og hendist niður á jarðhæð. Á leiðinni rek ég augun í nafnið utan á og þetta eru sömu myndir og ég var nýbúinn að hlaupa með upp. Nú jæja, skítt með það, mistök gerast, fer aftur upp á fyrstu hæð að þrífa. Næ ekki lengra en að setja einungis annan hanskann á mig þegar síminn hringir aftur:

H: Hæ, þú þarft að koma hingað upp í snatri og sækja rúm. Þú þarft svo að keyra það niður á bráðamóttökuna, stofu 7, leggja sjúklinginn í rúmið og keyra hann svo upp á gjörgæslu. Það liggur á! Sjúklingurinn er í slæmu ástandi.
G: uh...ókei.

Eins gott fyrir þau að ég stressaðist ekki upp við þetta því annars hefði ég ábyggilega sofnað á leiðinni upp. En ég s.s. drattast upp á sjöttu hæð, orðinn töluvert sveittur og lækker, næ í helvítis rúmið og drusla því niður. Þegar ég er á leiðinni þangað hitti ég strák sem vinnur við það sama og ég og spyr hvað hann sé að fara að gera.

Strákur: Ég er að fara að sækja sjúkling inn á bráðamóttökuna og keyra hann á gjörgæslu.
G: Magnað, ég líka. Ætli það hafi orði bílslys eða eitthvað?
S: Ég veit það ekki, hef ekkert heyrt.

Við göngum svo rösklega inn á bráðamóttökuna, ég með rúmið á undan mér. Verðum tvö stór spurningarmerki þegar það kemur svo í ljós að við erum að fara inn á sömu stofuna.

G: Jæja, ég er allavega kominn með rúmið, nennir þú kannski að keyra hann upp?
S: Já, já.

H: Hvað ert þú að gera?
G: Hver, ég?
H: Já.
G: Ég er kominn með rúmið sem þið vildu fá frá sjöttu hæð af því að það var ekkert laust upp á gjörgæslu.
H: Ég veit ekki hver sagði þér það en við þurfum ekkert rúm, það er rúm upp á gjörgæslu. Viltu gjöra svo vel að færa þig.
G: uhh....ókei þá.
H: Stilltu rúminu bara upp þarna við vegginn, við þurfum ábyggilega að nota það á eftir.
G: Ég ætti að geta gert það.

Fer aftur upp á fyrstu hæð að þrífa. Næ núna að setja á mig báða hanskana og bleyta tusku áður en síminn hringir.

H: Það er eitthvað rúm hérna niður á bráðamóttökunni sem að á að fara upp á sjöttu hæð. Það er þarna hjá...
G: Ég veit hvar það er.


Mig langaði helst að taka tréklossana af mér og kasta þeim í hausinn á þeim...

þriðjudagur, júlí 18, 2006

Ruben Ramos & The Mexican Revolution.

Og nei ég er ekki að grínast, þetta er nafn á hljómsveit sem var á Hróarskeldunni.

Ég held ég hafi verið að skrifa eitthvað hérna "um daginn" hvað instant kaffi væri nú alveg hreint snjallt þar sem að kaffivélin mín; Butler: A smart move gaf upp öndina.
Sem minnir mig á það, ég verð nú að fara í það að rífa það kvikindi í sundur fyrst ég er nú búinn að finna hamarinn minn....
Allavega, instant er ennþá mjög fínt í mínum huga. Þ.e.a.s. ekki fínt as in posh, bara fínt as in mér líkar það.
Fleiri plúsar fóru að koma í ljós þegar við fengum gesti og maður bauð upp á kaffi. Þá er maður alveg laus við það að hafa hellt upp á of þunnt eða sterkt kaffi. Maður lætur gestina blanda sjálfa og þannig er líka séð um þá staðreynd að misjafn sé smekkur manna. Mjög fínt.
Til að byrja með skellti ég bara bolla með vatni í inn í örbylgjuofninn en það fannst Siggu ekki nægilega posh þannig að hún tók sig til og verslaði handa okkur rafmagnsketil. Melissa heitir hún og er straumlínulöguð samkvæmt nýjustu tískukröfum samfélagsins. Ekkert sérstaklega fjölhæf, það er on takki og sé honum vippað í gagnstæða átt fer hann á off. En hún er flott og mér líkar hún.
Ég hef notað hana Melissu mína oft og leyft gestum að prófa, aldrei hefur hún brugðist. Ég notaði hana meira að segja rétt áðan, engin vonbrigði þá heldur.
En ég get ekki treyst henni! Það var nefnilega lítið letur á henni sem ég rak augun í um daginn.

Fullt nafn er: Melissa; A smart move!


Maður ætti alltaf að lesa smáa letrið.

laugardagur, júlí 15, 2006

Barra Head.

This just in: Nýjasta nýtt í heiðursdrápum. Drengur neitar að drepa systur sína.

Klöppum aðeins fyrir honum....ekki of lengi samt. Hann var víst laminn í klessu af föður sínum, bræðrum og frændum fyrir að neita því að drepa systur sína. Liggur núna á sjúkrahúsi.

Ég endurtek: Hann var laminn í klessu fyrir að NEITA AÐ DREPA SYSTUR SÍNA!!!


fæðingarhálfvitar...

fimmtudagur, júlí 13, 2006

The Raconteurs

Næstu titlar á færslum mínum verða tileinkaðir hljómsveitum sem að ég sá ekki á Roskilde Festival sökum asnalegra nafna.

Sá sem sagði; haltu vinum þínum nálægt og óvinum þínum enn nær, hlýtur að hafa átt ömurlega vini þar sem að hann skemmti sér greinilega mun betur með óvinum sínum...


þriðjudagur, júlí 11, 2006

Mikið labb.

1.438.222 m2 er stærðin á svæðinu og þýðir bara mikið labb. Ég hata að labba.
En ég er búinn að vera svona lengi að koma þessari hátíð frá mér vegna þess að ég var að vona að ég kæmist í myndirnar sem að Keli tók á festivalinu en þar sem að hann líkist mér mjög hvað varðar leti þá nennir hann ekki að skella þeim á netið og þar af leiðandi nenni ég eiginlega ekki að segja frá því sem gerðist, eitthvað svo tómlegt án mynda.
Gæti svo sem reynt að stikla á stóru...
Laugardagur kom. Steikjandi sól. Ég og Sigga byrjuðum að drekka klukkan 11:30 sökum hita og aðgerðarleysis. Keli sómalíukrakki gat ekki hugsað sér að byrja með okkur.
Dagurinn leið átakalaust til kl. 16:30. Þá var haldið á tónleikasvæðið að heyra í Deftones. Sigga lét sig hverfa. Deftones voru góðir. Söngvarinn kann bara ekki að syngja live, sem er alltaf svolítið fyndið. Hitinn að drepa allt lifandi. Settumst í skugga eftir Deftones. Heyrðum í Primal Scream taka sínu helstu slagara. Keli ekki enn byrjaður að drekka og ég barðist við að reyna að pissa á almannafæri. Gekk ekkert alltof vel.
Á meðan við biðum eftir TOOL voru Free Hole Negro, Thaaström og Silver Jews ekki að heilla þannig að við sátum sem fastast. Helstu umræðuefnin voru skítalykt, af hverju Keli gæti ekki skitið á almenningsklósettum, af hverju ég gæti ekki pissað á almannafæri, hvaða helvítis hiti þetta væri eiginlega, hvort það gæti verið að sætum actually í hlandpolli og af hverju það væru ekki fleir berbrjósta kellingar hérna?
Svo kom TOOL og skellti fram þvílíku showi að ég hélt ég myndi byrja að slefa. Af hlægjandi fólki í kringum mig að dæma voru miklar líkur á því ég væri nú þegar byrjaður á því. En þetta voru sem sagt laaaaangbestu tónleikar sem ég hef séð á þessari ævi. Söngvarinn söng jafnvel, ef ekki betur, en hann gerir á diskunum og hef ég aðeins heyrt í einum manni sem getur gert það. Nefnilega Kóngurinn; Eddie Vedder!
Trommusláttur sem fékk ungann mann eins og mig verða veikann í hnjánum. Svakalegt alveg hreint. Eina sem sló á gleði mína voru tónleikarnir sem voru eftir TOOL. Keli heimtaði að fá að sjá Kanye West og voru það hrottaleg leiðindi, hefði betur farið og hellt yfir mig bjór á tónleikum með Ricardo Villalobos sem voru að spila í næsta tjaldi.
Týndum svo Siggu eftir afar skemmtilegan misskilning og auðvitað týndum við henni þegar bæði síminn minn og hennar voru orðnir batterílausir. Eftir ca. 2 tíma hafði henni nú tekist að finna tjaldið og var ekki sú hressasta. Sakaði mig um að hafa stungið hana af. Alltaf fyrst til að hugsa það versta um mig þessi elska ;D
Sunnudagurinn var tekinn snemma sökum óbærilegs hita og nettri þynnku. Keli brá sér til KöPen til að fá að kúka í heimahúsi. Magnað alveg hreint. Ég fékk aftur á móti ræpu og var það stundum tæpt að ég kæmist á kamarinn til að legga klósettpappír yfir setuna í tæka tíð.
Ég og Sigga drifum okkur á tónleikasvæðið klukkan 14:30 af því að hana langaði að sjá Damian JR. Gong Marley, son hins síreykjandi, sígaulandi, sídauða Bob Marley. Damian Marley sá sér hinsvegar ekki fært að mæta. Sjálfsagt verið massaskakkur einhverstaðar á vitlausum flugvelli að leita að rútu. Nú jæja, Insen - Alva Noto & Ryuichi Sakamoto var ekki málið, þannig að við skelltum okkur á Artic Monkeys í staðinn. Þeir voru fínir. Fórum svo og heyrðu The Strokes taka nokkur lög en það kom ekki til greina að missa af Placebo þannig að við yfirgáfum Strokes eftir hálftíma. Placebo voru rosalega góðir. Allt sem ég hafði búist við af þeim kom beint á sviðið og bitchslappaði mig allhressilega. Mjög gaman. Hitinn, rykið og fólksföldinn gerði það aftur á móti að verkum að ég var að kafna og þurfti að færa mig út fyrir tjaldið. Gerði ekki mikið, heyrði og sá allt sem mig langaði að heyra frá þeim. Keli mættur aftur.
Hlustuðum þar næst á Franz Ferdinand. Aldrei verið mikill fan þeirra og það breyttist ekkert við þessa tónleika. Siggu langaði svo að sjá Goldfrapp og fylgdi ég henni þangað. Mínútu fyrir showið aflýsir hún tónleikunum, sjálfsagt verið með ræpu greyið.
Fórum til baka og hlustuðum á byrjunina á Roger Waters flytja The Dark Side of The Moon. Mig langaði meira heim. Þar sem ég er frekur lítill krakki var það samþykkt. Þegar við komum til Köpen og vorum búin að kveðja Kela fórum við í það að leita að Taxa. Gekk ótrúlega illa. Náðum loks að veifa í einn. Hann sér hvað við erum með mikinn farangur og opnar skottið með takka inn í bílnum. Ég opna hurðina og spyr hann hvort hann viti hvar systir mín búi. Hann horfði eitthvað skringilega á mig og játti því. Bætti svo við að ég mætti alveg loka hurðinni.
"Ha?"
"Já, já. Þú mátt loka hurðinni núna."
Ég gerði það og dró töskuna fyrir aftan bíl, ætlaði að vippa henni í skottið. Nei, nei. Brunar kallinn ekki bara af stað og það með opið skottið! Við Sigga litum á hvort annað vægast sagt furðu lostin. Skyldum þetta ekki alveg en gátum svo sem reiknað það út að við vorum ekki búinn að baða okkur í 5 daga og það væri líklega svolítil skítalykt af okkur. WHO KNEW!?!
Næsti leigubílstjóri lét það ekki fara fyrir brjóstið á sér og keyrði okkur á leiðarenda, með opinn gluggann. Það hefi verið hægt að skera í þessa fýlu. Held ég fari ekki aftur á Hróarskeldu nema að Pearl Jam komi aftur þangað(fat chance) eða að mér verði lofað rigningu allann tímann.

Ekki fann ég holuna til að láta bollann í...

sunnudagur, júlí 09, 2006

My Midnight Creeps...

..var ein af hljómsveitunum sem við sáum ekki á föstudeginum. Tókum þann dag frekar rólega og skelltum okkur í Roskilde bæinn sjálfann sökum arfaslakrar dagsskrár um daginn. Röltum niður göngugötuna þar og fengum okkur að borða á Sandbar, útibar þar sem þau voru búinn að vera svo sniðug að dreifa sandi yfir allt. Ég fékk mér Brunch. Massagott. Færðum okkur svo á annan bar sem sýndi leik dagsins á HM. Horfðum á hann og drifum okkur svo aftur á tónleikasvæðið af því að Keli mátti engan veginn missa af Bob Dylan. Allt í lagi með það svo sem. Ætli maður verði ekki að berja þennan margrómaða tónlistarsnilling augum, hugsaði ég með mér. Hefði betur geta sleppt því. Rosalega lélegt stöff í þremur orðum sagt. Hefði frekar átt að taka með mér kasettutæki og spólu með köttum að breima og hlusta á það í botni inn í tjaldi. Ég gæti haldið áfram í allan dag. Er að hugsa um að senda honum Dylan harðort bréf og hvetja hann eindregið til að hætta að syngja, for the sake of mankind!
Sigga tilkynnti svo að hún ætlaði að sjá Scissor Sisters og einungis út frá nafninu ákváðum við Keli að þetta væri bara eitthvað hommaband sem væri ekki vert að eyða frekari tíma í og við það sat. Sigga fór ein þangað á meðan við alvöru karlmennirnir færðum okkur yfir á ARENA sviðið þar sem danska sveitin Kasmhir lét til sín taka. Sigga hitti okkur seinna á þeim tónleikum og sér örugglega ekki eftir því. Þrusutónleikar sem við fengum að njóta þar. Ég er orðinn Kasmhir fan. Það er bara þannig.
Eina sem skyggði á þessa frábæru tónleika var að myndavélinni hennar Siggu var stolið og útskýrir það myndaleisið hérna við þessar frásagnir mínar. Bömmerinn fór á mjög hátt stig og var þar af leiðandi ekki mikið djammað það kvöld.
Röltum til baka í tjaldið og Sigga lagðist til hvílu.
Þroskaheftur og Þroskaheftari ákváðu aftur á móti að fara í smá frisbee...skemmst frá því að segja að við vorum að því þangað til að sólin kom upp og gátum þar af leiðandi lítið sem ekkert sofið, snjallt.

laugardagur, júlí 08, 2006

Hróarskelduhátíðin 2006

Við lögðum af stað klukkan 11:54 á miðvikudagsmorgni. Höfðum pakkað niður kvöldið áður til að þurfa ekki að vakna ekki neitt sérstaklega snemma. Strætóinn er á leiðinni niður götuna og við lítum á hvort annað, mjög svo rómantískt augnablik...MIÐARNIR!! Ég hendist af stað og rétt næ að koma aftur áður en strætóinn fer. Komum til Roskilde Festivalpladsen og förum að leita að tjaldsvæði. Gjörsamlega stappað af fólki og pissulyktin sem ég hafði ekki fundið síðan 2003 var mætt líka. Við fundum smá pláss eftir tveggja tíma leit og náttúrulega fyrsta mál á dagskrá eftir tjöldun var hvar við finnum bjór. Tók ekki langann tíma. Við drukkum.
Kannski allt í lagi að taka það fram að á þessum tímapunkti erum "við" s.s. ég, Sigga og Keli frændi.
Ekkert merkilegt gerðist á miðvikudeginum en undur og stórmerki gerðust á fimmtudagsmorgninum þegar ég vaknaði og bara ekkert svo þunnur í þokkabót! Mátti greina örlítil vonbrigði hjá Kela af því að hann var búinn að treysta á að hann gæti huggaði sig við að ég yrði alltaf eilítið þynnri en hann.
Það var svakalega gott veður þannig að maður gat ekki sofið í tjaldinu lengur en til svona ca. 8 á morgnana sem gerði það að verkum að maður svaf að meðaltali 3 - 4 tíma.
Mikil spenna var hjá ferðafélögum mínum og kannski ekki síður hjá mér hvort að mér gæti tekist að pissa út í girðingu eins og alvöru karlmaður. Ég er nefnilega með afar feimna blöðru og á því í miklum erfiðleikum með að framvkæma þetta auðvelda verkefni. Ef ég svo mikið sem held að það sé einhver að horfa á mig kemur ekki dropi út frá neðri hæðinni og liggur við að ég þurfi að hringja í 112 tólf bara til að finna félagann aftur. Skemmst frá því að segja að hershöfðinginn lét ekki af fyrri háttum og það var ekki fyrr en eftir 15 bjóra og myrkrið var skollið á að mér tókst að kreista nokkra dropa út í girðingu, annars stóð ég með hinum stelpunum í röð allan liðlangann daginn. Verð náttúrulega að fara að gera eitthvað í þessu. Eitt er að kaupa sér svona skýli á augun eins og hestar niður í bæ eru látnir vera með svo þeir haldi að þeir séu einir í heiminum eða þá bara fara til sálfræðings.
Mest sé ég eftir því að hafa misst af dEUS á fimmtudeginum af því að við vorum að bíða eftir Byssum og Rósum og þeir létu líka bíða eftir sér í klukkutíma. Loksins þegar þeir dröttuðust á sviðið voru fá orð til að lýsa vonbrigðunum sem heltust yfir mann. Slakt show svo vægt sé til orða tekið.
Færðum okkur yfir á Sigur Rós. Alltaf rignir jafn svakalega upp í nefið á þeim en þeir skiluðu víst sínu. Hafa fjandakornið ekkert breyst hvað varðar show eða lög síðan ég sá þá á Roskilde árið 2000.
Við fórum aftur á tjaldsvæðið og á einhvern undraverðan hátt næ ég alltaf að laða að mér einhverja norðmenn, misskemmtilega að vísu. Þessir voru aðeins skemmtilegri en norðmannafíflið sem plantaði sér hjá okkur 2003. Þurfti að reka hann í burtu á miður fallegan hátt en ég leyfði þessum að vera...sofnaði....föstudagur kemur síðar...

þriðjudagur, júlí 04, 2006

Heiðursdráp.

Þá er maður kominn af Keldunni eins og það er stundum kallað. Það verður voða lítið eða ekkert fjallað um Hróarskelduhátíðina fyrr en að ýmis mál eru komin á hreint.
Þangað til langar mig aðeins að kasta þessu fram(hugsanlega ekki fyrir börn):

Heiðursdrápsaga Danmerkur.

1986 var 16 ára drengur og móðir hans drepin í íbúð þeirra í Horsens. Drengurinn átti kærustu sem var 15 ára. "Vandamálið" var að faðir stúlkunnar var búinn að lofa einhverju gaur í Tyrklandi að hann mætti fá hana. Faðirinn sá sjálfur um morðin.

Seinna sama ár var 31 árs tyrknesk kona drepinn í Kaupmannahöfn af tengdapabba sínum fyrir svipaða óhlýðni.

1993 var 25 ára Kaupmannahafnarbúi drepinn af pakistanskri konu sinni og bróður hennar vegna þess að hann hafði ákveðið að hann ætlaði að skilja við hana.

1995 voru tyrkneskar systur skotnar í Helsingor af tyrkneskum manni. Systurnar voru skyldar tengdardóttur mannsins sem hafði farið frá sínum manni. Þær létu lífið útfrá sárum sínum.

1997 neitaði 20 ára gömul stúlka að láta þvinga sig í að giftast frænda sínum og var þar af leiðandi hengd. Stóri bróðir hennar skar hana svo á háls fyrir framan alla fjölskylduna.

2001 var 22 ára íranskur strákur hamraður með kúbeini þar til hann lét lífið. Það var faðir kærustu hans sem að sá um verkið. Hann átti víst í einhverjum vandræðum með að fá dóttur sína með sér heim til Írans.

Seinna það ár lét 59 ára gamall maður lífið eftir barsmíðar fjögurra manna. Hann gat ekki talað son sinn í það að biðja kærustunnar sem strákurinn var með.

Stuttu seinna, sama ár, var 14 ára stelpa frá Írak drepin af föður sínum. Honum fannst hún vera orðin aðeins of dönsk í sér, að eigin sögn.

2005 stóðu níu manns í því að elta uppi og drepa unga konu úr þeirra fjölskyldu. Í síðustu viku voru þau öll fundin sek og dæmd í fangelsi(mislangt). Það þykir sögulegt að þau skyldu öll hafa fengið dóm þar sem upp að þessu hefur einungis sá sem framkvæmdi morðið verið dæmdur.

(tekið, með engu leyfi, úr Xtra Fyens Stiftstidende)


Ég veit ekki með ykkur en ég ældi næstum yfir síðuna af ógeði. Ef einhver er á móti því að alhæfa, þá er það ég, en fjandinn hafi það! ÞETTA FÓLK ER BILAÐ Í HAUSNUM!!