þriðjudagur, maí 30, 2006

Instant er æði!

Á laugardaginn var leikur, gaman mjög. Við vorum að fara að spila við Taarup og var búist við hörkuleik. Sigga ákvað að mæta og horfa á kyntröllið sitt spila og komumst við að því að þetta væri í fyrsta skipti sem að hún hefði séð mig spila fótbolta síðan við kynntumst, sem mér finnst svolítið magnað. Þetta eru allt íslendingar sem eru í þessu liði okkar og furða ég mig alltaf jafn mikið á því hvað við erum miklar væluskjóður þegar okkur gengur illa. 0 - 2 undir í seinni hálfleik og hálft liðið hágrenjandi. En ekki Gummi, nei, nei. Ég tækla bara. Mér finnst það gaman. Súrt að við séum að tapa en ég fæ þó allavega að tækla. 3 mínútum fyrir leikslok erum við á einhvern undraverðan hátt búnir að jafna í 2 - 2 þökk sé einu sjálfsmarki frá Taarup mönnum og miskilnings í aukaspyrnu, sem gerði það að verkum að boltinn lak inn í fjærhornið: Yndislegt!
Andstæðingarnir voru vægast sagt orðnir örlítið pirraðir á mér og mínum háskatæklingum og voru farnir að bregða á það ráð að hoppa upp rétt áður en ég náði þeim og lenda svo ofan á mér og reyna þannig að meiða mig sem mest. Það tókst hjá einum. Hann náði að grafa takkaskóna all hressilega ofan í lærið á mér með þessum afleiðingum:

Og já, let´s just get this out of the way, ég er loðinn. Líkt og alvöru karlmaður, ef þú varst að velta því fyrir þér.
Þetta gula þarna í kringum sárið skiptir lit á hverjum degi. Ökklinn er í álíka góðu formi, bólginn mjög og skemmtilegur. Verð að viðurkenna að hann náði mér þarna, helvítið frá Taarup. Kom samt ekki í veg fyrir að tæklaði hann nokkrum sinnum í viðbót og skemmti mér afar vel! Svo tókust náttúrulega allir í hendur eftir leikinn eins og öpum og köttum sæmir.

Eftir leikinn fórum við svo í mat til Bögga og Katrínar. Þar fengum við lambalæri með hvítlauk í, karpellur og grænar ORA baunir. Himneskt alveg hreint! Ekki jafn himneskt fyrir Siggu daginn eftir að þurfa að deila með mér íbúð. Grænu baunirnar létu til sín taka og sluppu út í þykkum straumum. Svo þykkum að Sigga fann ekki lyktina fyrr en korteri eftir að ég rak við og hún sat bara 2 metrum frá mér.
Í gær kom svo vinnufélagi okkar, hann Jesper, í heimsókn og drukkum við mikið. Mikið gaman, mikið fjör. Við reyndum að kenna honum póker með alveg ótrúlega lélegum afleiðingum. Hann foldaði mjög oft með 3 eins...sigh.

Butlerinn minn er ennþá bilaður. Kominn í instant dæmið á meðan. Get ekki gert við hann, finn ekki hamarinn minn.

Lenti í skondnum atvikum í vinnunni í síðustu viku. Í annað skiptið var ég að koma upp á sjöttu hæð og var að keyra sjúkling út úr lyftunni þegar allt í einu kemur einhver kelling out of fucking nowhere og hendir sér upp í rúmið öskrandi eitthvað um að hún(sú sem lá í rúminu) yrði að hjálpa sér! Á eftir henni kom svo hjúkka hlaupandi og reyndi að draga hana úr rúminu. Ég kláraði að keyra rúmið úr lyftunni og þá stökk crasy lady á mig og sagði að ég yrði hreinlega að hjálpa henni. Ég náði að hrista hana af mér og gaf í, klessti næstum á annað rúm í látunum.
Hitt skiptið var ég að keyra sjúkling inn í lyftu, aftur á sjöttu hæð. Átti að keyra hann niður á jarðhæð í röntgen myndatöku. Það er rafmagnsleiðsla í flestum rúmum til að geta lyft því upp og niður, lappir, bak og svo framvegis. Þessa leiðslu þurfum við alltaf að taka úr sambandi og koma henni einhvern veginn fyrir á rúminu þegar við leggjum af stað úr herberginu.
Við erum komnir í lyftuna og hurðin er að lokast þegar mér er litið niður á gólf og sé að leiðslan hefur dottið niður. Ekki nóg með það, hinn endinn á henni var hinumeginn við lyftuhurðina sem nú var lokuð! Mér datt ekki í hug að a) Ýta á stopp takkann inn í lyftunni, eða b) ýta á "opna hurð" takkann. Í staðinn rak ég upp þetta líka móðursýkis óp og henti mér niður á gólfið, reif í leiðsluna og togaði af öllum lífs og sálarkröftum!
"Hvað er að?" heyrði ég sjúklinginn muldra.
"EKKERT!!" svaraði ég á alveg ótrúlega ekki róandi hátt.
Ég var búinn að sjá fyrir mér að helvítið færi af stað, myndi rykkja í rúmið með þeim krafti að sjúklingurinn fengi hjartaáfall, myndi svo stoppa og þarna myndi ég sitja fastur í lyftu með dauðum manni. En sem betur fer opnaðist helvítis hurðin aftur þegar ég byrjaði að toga í leiðsluna, ég tók hana inn og reyndi að ljúga að honum að ég hefði bara ýtt á vitlausan takka...

..I think he bought it.

miðvikudagur, maí 24, 2006

Fugleinfluenza.


Jább, þetta segir allt! Þessir danir eru á móti mér! Það sannast best með þessu skilti! Nú má ég ekki einu sinni fara út að rölta með hænuna mína! Brjálaður!

sunnudagur, maí 21, 2006

Roskilde Festival, here I come!

Búinn að fá frí í vinnunni til þess að fara á Hróarskelduhátíðina. Ég laug að henni að ég hefði keypt miða áður en ég fékk þessa vinnu, svona til þess að auka líkurnar á að ég fengi frí. Hún sagði að þetta væri alveg hörmulegur tímapunktur sem að ég væri að biðja um frí á og að hún væri frekar ósátt við þetta en hefði samt ákveðið að gefa mér frí. Vííííííí!
Nú er bara að kaupa sér miða...múhahaha!
Tool er efst á lista, Deftones er eitthvað sem að ég ætla heldur ekki að missa af. Svo voru Placebo líka að gefa út disk sem að er það besta sem hefur komið frá þeim í mörg ár þannig að ég ætla ekki að láta mig vanta þar. Mér skilst að Sigur rós verði þarna líka. Þeir eru prump! Sigur rós er svo mikið prump! Ég gæti prumpað á þá! Jæja, nú er ég allavega kominn með hugmynd um hvað ég ætla að gera á meðan Sigur rós er að "performa".
Er einhver sem maður þekkir á Íslandi að leggja leið sína á þessa hátíð?(Fyrir utan Kela)

Ég hætti að reykja um daginn!

Vá hvað það var scary einn og hálfur dagur...

Þessi sorry ass tilraun til að hætta var gerði til þess að draga úr peningaeyðslu til að geta keypt nýtt sjónvarp einn daginn, fljótlega. Þannig að fyrst að maður hafði það ekki sér að hætta "cold turkey", þá ákvað maður að búa til kerfi. Nú fæ ég bara 10 sígarettur á dag og bara sorry ég ef að ég er búinn með þær klukkan 18 eða eitthvað álíka, fæ bara ekki meira á dag. Það hefur ekki ennþá gerst. Hið magnaða gerðist aftur á móti að maður er að lenda í því að eiga kannski 3 - 4 sígó eftir þegar ég fer að sofa. Verða að segja að ég átti ekki von á því. Held að það sé að gerast af því að maður er svo skíthræddur um að klára þessar 10 sígó að nú reykir maður bara þegar maður gersamlega neyðist til þess, eða heldur að maður neyðist til þess - þetta er jú allt saman bara sálfræðilegt. Þessar auka sígó fær maður svo ekki að bæta við 10 stykkinn sem að maður fær daginn eftir, heldur fara þær sem afgangs verða í drykkjusjóð af því að maður reykir alltaf töluvert meira þegar maður byrjar að hella í sig.
Svo er nú líka bannað að reykja í íbúðinni nema út í eldhúsi við opinn glugga og lyktin í íbúðinni hefur skánað til muna við það. Gerir það líka að verkum að maður nennir sjaldnar að fá sér eina þegar maður er kannski að horfa á bíómynd eða sjónvarpið.
Nú er bara að bíða eftir að peningarnir rúlli hreinlega inn...

Það er komið eitthvað fuglaflensu skilti upp ekki langt frá okkur, ætla að hjóla þangað og taka mynd af því...

fimmtudagur, maí 18, 2006

Þetta er GLAPRÆÐI!

Ég vakna í elli, það er að segja stellingunni elli, eins og stafurinn "L"...ég er bara að útskýra þetta fyrir sjálfum mér. Sófinn var bara tveggja manna þannig að það þurfti að ýta öðrum stól að fyrir hausinn á mér.
Úlfur og Hemmi stóðu yfir mér. Báðir á nærbuxunum.
Ég held að líkaminn á mér hafi farið í einhvers konar sjokk við þessa sjón, eitthvað alvarlegt kom allavega fyrir. Ég varð nefnilega ekki þunnur! Ekkert TROE, ekkert íbúfen, ekki neitt. Ef það er ekki saga yfir í Suður Þingeyjarsýslu veit ég ekki hvað er.
Við náðum að koma okkur út úr herberginu eina mínútu í tólf til að sleppa við sektina. Fórum niður í Lobby þar sem Hemmi var sakaður um að hafa horft á DOOM. Mig rámar eitthvað í það móment en það síðast sem ég man var einhver risa api að berja niður flugvélar og á hinni stöðinni var allsbert fólk að kenna okkur öruggt kynlíf með því að setja öryggið á oddinn...
Svo gerist hið merkilega að ég held að ég hafi fengið blackout klukkan 12:32 á sunnudegi. Næst sem ég man er að ég staddur inn í Tívólíinu með nærbuxnagenginu og Birni. Ég vil meina að við höfum farið á Macdonalds eða reynt að leita að apóteki handa Hemma í millitíðinni, er ekki viss. Hemmi gjörsamlega að hverfa hann var svo þunnur og búinn að kaupa sér ný autopilot gleraugu þar sem það virðist að hann hafi autopilotað autopilotinn úr hinum. Eftir mikil fundarhöld og tilraunir til nýbreytni ákváðum við að fara á sama stað og við fórum á fyrir tveimur árum; Valhöll. Settumst niður og ákváðum að reyna að drekka þynnkuna úr Hemma. Það gekk illa. Eina sem hann gerði vara að stara ofaní glasið og muldra; "Þetta er glapræði". Þangaði til Þynnkubaninn kom. Arnar, hressasti maðurinn í allri Kaupmannahöfn, vaknaði klukkan 6 um morguninn eða eitthvað álíka, búinn að hella í sig kaffi á meðan hann þýddi Dr. Phil. Hann ákvað að setjast með okkur og eftir minna en korter var Hemmi orðinn hressari en djöfullinn og Arnar lá fram á borðið eins og maður sem hafði verið að drekka í 4 mánuði. Snilld!
Eftir tveggja tíma setu í valhöll og all nokkrar ferðir á klósettið var ákveðið að nú væri nóg komið. Við þyrftum nýbreytni og skemmtilegheit. Eftir að vera komnir út og búnir að elta autopilotinn í 20 mín vorum við búnir að týna Arnari í ískaup og lentir í gróðurhúsi, lýg því ekki. Sest niður, einn bjór, farið burtu. Í þetta skipti fékk Hemmi ekki að ráða og þess vegna fundum við HARD ROCK. Ekta staður með ekta mat og öli. Kominn tími til. Eftir að einhver var búinn að leiðbeina okkur í gegnum allan staðinn í leit að sæti, tvisvar, komumst við að því að við vorum komnir út úr tívolíinu...ennþá betra!
Ég, Hermann og Björn vorum orðnir hálf fullir þegar við komumst þaðan út og Arnar allur að braggast. Held að Úlfur hafi bara verið að reyna að vera ábyrgur faðir, hvað sem það nú þýðir...
Taxi niður á hótel, þar sem að ég kyssti færri bless en ég vildi, allir eitthvað að drífa sig í bussen, náði þó nokkrum.
Langar mig bara að þakka öllum fyrir þessa helgi sem var frábær og munið bara: Ef þú átt heima hérna, er hver einasta helgi svona ;)




svo lengi sem ég er hérna auðvitað...

þriðjudagur, maí 16, 2006

Glapræði - laugardagur.

Á laugardaginn vaknaði ég klukkan 12 með svakalegasta hausverk sem ég hef fengið síðan um áramótin. Fékk mér TREO og hélt áfram að sofa, náði klukkutíma lúr áður en Arnar þynnkubani hringdi í mig til að segja mér að ég mætti ekki missa af einhverjum æsispennandi ratleik. Fékk mér tvær íbúfen og rauk á fætur, fann ekki veskið og skyldi ekkert í því af hverju buxurnar mínar voru blautar.
Fann loksins veskið á hinum ólíklega stað; buxnavasanum. Þaut niður í bæ til þess eins að komast að því að það mættu bara fimm í ratleikinn og var hann því blásinn af. Hitti í staðinn Hemma, Bjössa og Úlf á Dubliners þar sem Liverpool - West Ham var að fara að byrja eftir klukkutíma. Eins ólíklegt og það hljómar var alveg hörkugaman að þessum leik, sérstaklega þegar West Ham var yfir. Ekki eins gaman þegar gaurinn fyrir aftan mig fagnaði og svoleiðis dúndraði í hnakkann á mér. Ég var millimetrum frá
því að skalla bjórglasið mitt sem hefði reyndar ekki gert svo mikið þar sem að það var úr plasti. Kári mætti í hálfleik og gerði þau sömu mistök og við að panta sér bacon-burger sem var ábyggilega búinn til úr sjálfdauðu hreindýri.
Leikurinn fór í framlengingu og svo vító og endaði með því að annað liðið vann, man aldrei hvað þeir heita. Þegar þessum svakalegheitum var lokið vorum við eiginlega orðnir of seinir í árshátíðarmatinn en náðum því samt. Hann var fínn.
Eftir að hafa farið á trúnaðarstigið með Arnari þynnkubana sá ég hann ekkert meir það kvöld. Fann í staðinn drengina sem væru líklegir til að gera einhverja vitleysu, Hemma og Bjössa. Á milli þess að hella á sig og í drykki af ýmsum tegundum spjallaði ég við nokkrar gamlar og góðar vinkonur og tilkynnti þeim að brjóstin á þeim hefðu greinilega stækkað síðan síðast. Viðbrögðin voru vægast sagt misjöfn...
Við þrír ákváðum því næst að fara upp á hótel herbergið hans Hemma og halda partý. Þar var Úlfur, dauður.
Skítt með það, við héldum partý, ekki vaknaði Úlfur. Svo kláraðist bjórinn þannig að við ákváðum að fara on a beer run. Upp í taxa og báðum hann að finna næsta 7/11. Með í taxanum var einhver stelpa sem ég veit ekkert hver er. Fljótlega fór okkur að gruna að þessi leigubílstjóri væri nú eitthvað að fokka í okkur, keyrði bara í hringi. Þessari stelpu fór greinilega að leiðast bílferðinn þannig að hún tók sig
til og reif svoleiðis í hneturnar á mér! Mér fannst ekki alveg við hæfi að slá hana utan undir þannig að ég fór að hnakkrífast við bílstjórann um að nú væri nóg komið og við létum ekki fara svona með okkur.
Nú skyldi hann stoppa og hleypa okkur út undireins! Sem hann og gerði...beint fyrir utan 7/11. Ég, Björn og Hermann fóru því aftur upp á hótelherbergi að halda partý með Úlfi. Hann vaknaði ekki við djöfulganginn þannig að við fórum niður í lobby til að tjékka á stemmningunni. Hún var súr.
Þannig að við fórum aftur upp á hótelherbergi og héldum djöfulganginum áfram, kannski smá í þeirri von um að Úlfur myndi vakna.
Hann vaknaði ekki fyrr en Bjössi var farinn og ég og Hemmi báðir dauðir. Hrotur í víðóma þurfti til að vekja kappann.

mánudagur, maí 15, 2006

Glapræði - föstudagur.

Ég kom til KöPen á föstudegi, tók við klappi og kossum, leiddi grunlausa ferðalanga í átt að bar sem var farinn á hausinn, mætti í kvöldmat þar sem bjóða átti upp á krókódíl, komst seinna að því að þetta var bara kengúra, átti greinilega afmæli, tók við aðeins fleira klappi fyrir það, fór á karíókíbar, kafnði næstum þar, tók þá bara hjólataxa og hljóp út í brunn, fór upp á hótel og slóst við brunaslöngu sem á einhvern undraverðann hátt hafði yfirhöndina allan tímann, fékk brunasár á puttann eftir slagsmálin, lenti í einhverju drama með stelpum 1, 2 og 3, fór niður í lobby og heimtaði að starfsmenn myndu skoða síðasta klukkutíma í öllum vídjó vélum hótelsins til að leita að manneskju, var beðinn um lýsingu á manneskjunni, hljóp út, heim til Rannveigar og svaf þar.




Svo er ég ekki frá því að ég hafi fengið smá svona af því að ég er að deyja í rassinum.

Laugardagur og sunnudagur koma þegar ég hef safnað aðeins meiri kröftum...

miðvikudagur, maí 10, 2006

Butler - A smart move.

Við Sigga versluðum okkur kaffivél í október. Butler, heitir hún og sölufrasinn "A smart move" er líka prentað í síðuna á henni. Ég setti hana í gang fyrir 56 mínútum og hún er enn að! Ég þori ekki að fara inn í eldhús og tjékka á henni því óhljóðin eru gríðarleg. Ég er búinn að vera vakandi í 57 mínútur og hef ekkert kaffi fengið - þetta verður langur dagur...

Maður þarf að mæta í vinnu á eftir og ég er fallinn frá þeirri hugmynd að gera einhverja tilraunir á spítalanum. Ástæðan er líklega sú að maður veit aldrei hvort maður er að fara að fokka í einhverjum sem er nýbúinn að missa ástvin.

Árshátíð SKJÁSEINS verður haldin í KöPen um helgina og ég ætla að gera mér ferð þangað og hitta liðið, teiga nokkra öllara, syngja nokkra slagara og hlusta á annað eins. Hit me with your rythem stick er ofarlega á óskalistanum ásamt Hit me baby one more time í íslenskri þýðingu Hemma Hemm. Síðast þegar SKJÁREINN hélt árshátíð sína í KöPen var stuð.
Uppúr stóð held ég lyftuferðin hjá mér og Hemma, næturöskrin í Dignusi, þegar ég þurfti að útskýra fyrir Bnak hvernig maður færi yfir "strikið", autopilotinn hans Hemma, Long Island drykkirnir hans Bjössa og leiðbeiningarnar sem hann gaf Bigga, að Biggi skyldi hafa fundið staðinn. Margt fleira náttúrulega sem maður man ekki sökum ölæðis og akkúrat núna: Kaffileysis.

Nú er The Butler - A smart move búinn að vera í gangi í 90 mínútur og er ekki enn hætt! Það er eins gott að þetta verði besta kaffi sem að ég hef á ævinni fengið...

Við Sigga vorum bæði í fríi í gær og tókum daginn snemma. Byrjuðum á að fara á kaffihús og fengum okkur brunch. Röltum svo niður göngugötuna og tókum þá snilldar ákvörðun að kaupa okkur tennisspaða og bolta. Skemmst frá því að segja að við fundum svo engann tennisvöll.
Svo fórum við og ætluðum að kaupa okkur sjónvarp. Fundum eitt 32 tommu JVC tæki og gíruðum okkur upp fyrir að taka það með heim. Ákváðum að dreifa greiðslunum yfir 3 ár þar sem að peningar eru ekki eitthvað sem að við skítum þessa dagana en þá var það náttúrulega ekki hægt þar sem að reglur um svoleiðis kaup segja til um að maður verði að vera búinn að búa hérna í 5 ár áður en það er hægt! Skemmst frá því að segja að við keyptum ekki neitt sjónvarp.
En það rættist nú samt úr deginum þar sem okkur var svo boðið í grillveislu til Kristjáns og Nooru(finnsk). Eftir matinn, sem var geðveikur, spiluðum við hið æsispennandi og gríðarskemmtilega Kubb ásamt því að slátra einum kassa af bjór. Skemmst frá því að segja að ég og Sigga töpuðum þessu spili.



Nú eru 102 mínútur síðan The worst Butler in the world var settur í gang og ekkert lát virðist vera á óhljóðunum sem berast úr eldhúsinu...ég er að verða hálf argur.

mánudagur, maí 08, 2006

Ætli ég fái mér ekki bara eina steikarsamloku...

Ég væri til í eina svoleiðis núna.


Maður var að vinna um helgina. Sigga líka. Við fórum með 2 lík niður í frystinn og Sigga fór með eitt án mín. Í seinna skiptið taldi ég 13 lík þarna niðri og gerði mér grein fyrir því að ég hef aldrei séð svona mörg lík í einu. Áhugavert, ekki satt?
Á laugardaginn kom inn maður sem hafði verið að leika sér á mótorhjóli og hafði verið með félaga sinn aftan á. Þeir dúndruðu svo aftan á traktor með þeim afleiðingum að ökumaður vélhjólsins missti aðra löppina og aðra hendina, félagi hans lést.

Svo kom annar strákur inn á bráðamóttökuna. Hann hafði ákveðið að keyra á tré. Ekki nóg með það, hann reyndi svo að stinga lögguna og sjúkraliðana af ON FOOT! Það kom svo seinna í ljós að þessi sami gáfumaður hafði komið á bráðamóttökuna um áramótin líka.
Hann hafði verið í partýi einhverstaðar og ákveðið að skemmta liðinu aðeins. Hann stakk sem sagt sprengju upp í kjaftinn á sér og kveikti í. Óþarfi kannski að taka það fram en ég ætla samt að gera það; hann sprengdi náttúrulega af sér hálft andlitið!
Hann hefur nú fengið viðurnefnið "Hálfvitinn" af okkur venjulega, ef ekki fullkomna, fólkinu.

Ég var nú samt að hugsa(don´t mind the smell). Ég hef aldrei verið að vinna stað þar sem er svona mikið fólk og mig hreinlega klæjar í puttana - verð eiginlega að gera eitthvað við allt þetta fólk. Einhverja tilraun. Eitthvað stórt! Ótrúlegt en satt dettur mér eiginlega ekkert nógu gott í hug. Ekki nógu stórt! Lyktin er að verða óbærileg...

Kannski ert þú með einhverja hugmynd?

föstudagur, maí 05, 2006

Lost?

Lost eða Prison Break? Prison Break it is.
Lost eða Scrubs? Scrubs it is.
Lost eða Guiding Light? Held ég verði að segja Guiding Light!

Þessir Lost þættir eru farnir úr því að vera einu frumlegustu og mest spennandi þættir sem sýndir hafa verið í sjónvarpi í það að verða langdregnari en einmitt Guiding Light! Ég hata G.L. útaf lífinu og ætti að það að gefa ágætis mynd af því hvað Lost er að gera mér þessa dagana.
Það lítur allt út fyrir að þeim takist að draga þetta út til að geta búið til eitt síson í viðbót, klapp, klapp. Ótrúlega leiðindi alveg hreint að reyna að halda augunum opnum í gegnum einn svona þátt. Eftir þetta síson er ég hættur að eyða mínum dýrmætu augum í þetta drasl. Þegar ég verð kominn á elliheimili verða þeir kannski hættir og þá get ég spurt blinda kallinn sem þurfti að hlusta á síðustu tvo þættina hvernig þetta endaði allt saman.
Mín vegna mega þau öll rotna á þessari skíta eyju!



Prison Break rúlar by the way...

þriðjudagur, maí 02, 2006

Tilraun: AKbs 42187

Ekki dauður enn! Það veit bara á gott...

En já, tilraunir. Hef mjög gaman af þeim. Er búinn að standa í einni svoleiðis síðastliðna tvo mánuði.
Sigga hélt því nefnilega fram að klósettið myndi haldast hreinna ef að ég myndi setjast niður í hvert skipti sem að ég pissaði. Þetta er reyndar staðreynd sem að ég hef heyrt margar konur halda fram.
Þannig að ég setti þessa tilraun í gang ASAP og til þess að halda nákvæmlega utan um niðurstöðurnar þreif ég klósettið sjálfur, sem ég geri nú reyndar hvort eð er þannig að engin breyting á því svo sem...
Eftir mánuð af því að setjast niður í hvert skipti sem að ég pissa get ég með sanni sagt að klósettið helst ekki hreinna! Ekki nóg með það, ég er ekki frá því að það verði jafnvel ógeðslegra!
Ég lenti meðal annars í því að það skvettist piss upp undir setuna og í afar óþægilegum tilvikum skvettist piss á lærin á mér. Þá datt mér í hug að reyna að stýra kvikindinu aðeins og þá lenti ég í því að það skvettist bara upp á rassinn á mér í staðinn! Ekki mjög gaman að þurfa alltaf að fara í sturta eftir eina stutta klósettferð.
Hinn mánuðinn stóð ég og kostirnir eru mun fleiri. Ekkert þvag á setunni, ekkert þvag á rassi né lærum, minni þrif og mér líður aðeins meira eins og karlmanni.
Niðurstaðan er einföld strákar, stöndum, heilsum hershöfðingjanum og verum stoltir af því!



Ég held að þetta sé bara eitthvað sem að konur segja af því að þær eru öfundsjúkar yfir því að geta ekki staðið sjálfar þegar þær pissa...